Sérferð til Bari 16. - 20. apríl 2025
Ferðalýsing
Bari er heillandi borg sem er staðsett á suðausturströnd Ítalíu í Púglia héraði. Bari er höfuðborg héraðsins og önnur stærsta borg Suður-Ítalíu með rúmlega 315.000 íbúa og er svo rík af list, sögu og matreiðsluhefðum að hver heimsókn er ógleymanleg upplifun. Þarna má einnig finna eina stærstu höfn Ítalíu sem gerir Bari að lykilaðila í viðskiptum og flutningum við Adríahaf fyrir verslun og viðskipti á Suður-Ítalíu. Sjávarsýn frá Bari er undurfögur enda er borgin er orðin einn vinsælasti áfangastaður skemmtiferðaskipta og ferja frá löndum eins og Grikklandi, Króatíu, Albaníu, Serbíu, Tyrklandi, og auðvitað Svartfjallaland. Borgin þjónar sem efnahagsmiðstöð fyrir Puglia-svæðið þar sem atvinnugreinar eins og landbúnaður, framleiðsla og ferðaþjónusta gegna mikilvægu hlutverki. Sveitirnar í kringum borgina eru yfirfullar af ólífulundum og vínekrum sem gerir það að verkum að mikið af fallegum akstursleiðum eru út frá borginni.
Fararstjórinn okkar, Hjördís Hildur Jóhannsdóttir, bjó á Ítalíu í 10 ár. Hún stundaði ítölsku- og ferðamálanám við Ferðamálaskólann í Flórens 2000-2004 og frekara ítölskunám við Háskóla Íslands. Hjördís þekkir vel til ferðalaga á Ítalíu og Mið-Evrópu. Hún hefur unnið við þýðingar og pistlaskrif (m.a. fyrir Stöð 2 og nokkur tímarit um ítölsk málefni). Sjálf hefur hún fest mikla ást á ítölsku máli, mat og menningu. Farþegar okkar verða því í góðum höndum í þessari spennandi ferð.
Dagskrá
Ferðadagur: Við hefjum ferðina með flugi með Neos, NO3920, frá Keflavík til Brindisi kl 08:00, lent 14:50. Þaðan er farið með rútu á hótelið.
Dagur 2: Farið verður með rútu til að skoða Alberobello og Ostuni. Alberobello er hvað þekktast fyrir Trulli húsin sem þar má finna og eru gerð úr kalksteini og byggð á 14. öld en þau eru skráð á heimsminjaskrá UNESCO vegna sérstöðu sinnar. Ostuni bærinn er þekktur fyrir glitrandi hvítar byggingar, miðaldagötur og gotneska dómkirkju. Í ferðinni verður stoppað hjá ólívuolíuframleiðendum þar sem smakkað verður á þeirra eigin framleiðslu.
Dagur 3: Farið með rútu til Matera sem er höfðuborg Basilicata héraðsins. Við munum fara í göngutúr um bæinn og njóta leiðsagnar á meðan. Tákn borgarinnar eru „Sassi“ eða forsögulegir hellar, grafnir í stein fyrir um 9.000 árum og eru þeir á heimsminjaskrá UNESCO.
Dagur 4: Farið með rútu til Lecce og Gallipoli. Lecce er töfrandi borg staðsett í suðurhluta Ítalíu í Puglia héraði á Salentoskaganum. Borgin hefur oft verið kölluð Flórens suðursins, en Lecce er ein af elstu borgum Ítalíu og eitt best varðveitta leyndarmál hvað varðar sögu, arkitektúr og umhverfi. Gallipoli er heillandi strandbær sem er einnig í Puglia héraðinu. Bærinn er frægur fyrir töfrandi strendur, kristaltært vatn og fallegan gamla bæ.
Heimferðardagur: Frjáls dagur fram að brottför um kvöldið. Mælum með að skoða Bari og það sem borgin hefur upp á að bjóða. Akstur frá hóteli að flugvellinum í Brindisi. Flug með Neos, NO3920, kl. 20:00 og lent í Keflavík klukkan 22:55.